Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 166/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 166/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. desember 2022, um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 21. desember 2022 þar sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans voru stöðvaðar og ofgreiddar atvinnuleysisbætur innheimtar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 13. júlí 2020. Umsókn kæranda var samþykkt 20. ágúst 2020 og bótaréttur metinn 100%. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna starfa hjá fyrirtæki í eigin eigu. Kæranda var gefinn kostur á að skila skýringum og athugasemdum vegna þessa. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. desember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 59. gr. a. laga nr. 54/2006. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir marsmánuð 2021, tímabilið júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022, samtals að fjárhæð 5.775.550 kr., en heildarskuld við stofnunina næmi 6.641.883 kr. Þann 28. desember 2022 bárust Vinnumálastofnun skýringar frá kæranda og var mál hans því tekið fyrir að nýju. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. desember 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. mars 2023. Með bréfi, dags. 29. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 27. apríl 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 17. maí 2023 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi þann 13. desember 2022 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur til hans vegna gruns um störf hjá fyrirtæki í eigin eigu. Þann 20. desember 2022 hafi stofnunin tekið ákvörðun um stöðvun greiðslna ásamt innheimtu ofgreiddra bóta sem hafi verið reist á sama grundvelli. Þann 29. desember 2022 hafi fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar verið staðfest með endurumfjöllun. Ákvarðanirnar hafi aðeins verið birtar á „Mínum síðum“ á síðunni „Bréf“ undir flipanum „Rafræn skjöl“ en kæranda hafi aðeins verið kunnugt um þau skilaboð sem hafi verið birt á forsíðunni. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um síðuna „Bréf“ og hafi aldrei áður opnað hana. Kærandi hafi því ekki haft neina vitneskju um efni ákvarðananna fyrr en þann 5. mars. 2023, en þá hafi honum brugðið verulega við að sjá misræmi í skattframtali sínu og farið að leita svara. Fram að þeim tíma hafi kæranda aðeins verið tilkynnt í tölvupósti um ný skilaboð á „Mínum síðum“ en aldrei ný skjöl sem væru geymd á öðrum stað á síðunni. Kærandi hafi andmælt stöðvun greiðslna með tölvupósti þann 28. desember 2022. Þá hafi hann ekki haft neina vitneskju um ofgreiddar bætur eða innheimtu þeirra, enda engin skilaboð borist þess efnis. Andmælin hafi verið móttekin sama dag og degi seinna, 29. desember 2022, hafi kæranda borist skilaboð um að endurumfjöllun væri lokið og að fyrri ákvörðun væri staðfest. Seinna, eða 4. janúar 2023, hafi kæranda borist villandi skilaboð frá Vinnumálastofnun um afskráningu af atvinnuleysisskrá á þeim grundvelli að hann hefði ekki staðfest atvinnuleit. Enn og aftur hafi kæranda ekki verið kunnugt um efni fyrrnefndra ákvarðana fyrr en 5. mars 2023. Þá hafi kærandi rakleiðis haft samband við Vinnumálastofnun, eða þann 6. mars, og óskað eftir aðgangi að meintum gögnum sem styddu grun þeirra um störf hans hjá B ehf. og jafnframt að framkomin andmæli yrðu tekin til greina þrátt fyrir liðinn frest í ljósi ófullnægjandi birtingar. Þann 8. mars 2023 hafi kæranda borist svar um að erindið hefði verið móttekið og áframsent til eftirlitsdeildar. Síðan þá hafi ekkert heyrst og fari kærufrestur senn að líða ef marka megi dagsetningu endurumfjöllunar, 29. desember 2022.

Hvað varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um stöðvun greiðslna og innheimtu ofgreiddra bóta, sem hafi verið staðfest með endurumfjöllun og kærandi hafi loks náð að kynna sér, megi finna verulega annmarka. Kæranda hafi aldrei verið gefinn raunverulegur kostur á að koma andmælum á framfæri eða óska eftir rökstuðningi, enda hafi ákvarðanirnar aldrei verið birtar með réttmætum og sannanlegum hætti. Þrátt fyrir birtingu á „Mínum síðum“, sem kærandi hafi ekki vitað af, hafi ekki enn verið gefinn út greiðsluseðill. Kærandi hafi því ekki haft neina vitneskju um ákvörðunina og umfang hennar né réttaráhrif. Ákvarðanirnar hafi ekki verið sendar á lögheimili kæranda og hvorki hafi honum verið tilkynnt með skilaboðum á „Mínum sínum“ né í tölvupósti að umrædd gögn væru aðgengileg undir síðunni „Bréf“. Þá hafi það ekki verið ljóst af uppsetningu heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Hvað rannsókn málsins varði geti kærandi ekki séð að fullnægjandi upplýsingar hafi legið til grundvallar ákvörðuninni sem kærandi telji reista á röngum forsendum. Kærandi hafi fengið það staðfest að ekki hafi verið haft samband við neina hlutaðeigandi aðila sem komi að rekstri B ehf. né hafi verið óskað eftir gögnum frá fyrirtækinu. Kæranda hafi enn fremur ekki verið veittur aðgangur að þeim meintum gögnum sem hafi leitt til gruns Vinnumálastofnunar um störf hans hjá B ehf. og geti því aðeins gengið út frá því að umdeild ákvörðun hafi verið tekin út frá opinberum skráningum úr fyrirtækjaskrá. Í því tilliti bendi kærandi á fyrri framkvæmd úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 324/2022 þar sem skráning í nám hafi ekki eins og sér getað sagt til um stundun þess. Kærandi óski eftir því að slíkt verði lagt að jöfnu við úrlausn þessa máls í ljósi andmæla. Þrátt fyrir að vera skráður sem raunverulegur eigandi fyrirtækisins á rsk.is komi einnig fram í opinberum samþykktum félagsins að staða kæranda sem stjórnarformaður sé ólaunuð. Eins verði ekki séð af þeim skömmum tíma sem hafi liðið frá fyrstu andmælum kæranda þar til endurumfjöllun hafi verið lokið (25 klukkustundir á milli), að lagt hafi verið forsvaranlegt mat á andmæli hans gegn ákvörðuninni. Kærandi hafi ekki fengið það staðfest að mál hans væri til úrlausnar á ný hjá Vinnumálastofnun þrátt fyrir að erindið hafi verið móttekið 8. mars 2023 með greinargóðum andmælum.

Kærandi tekur fram að hann sé skráður sem raunverulegur eigandi B ehf. með 60% eignarhlut í félaginu og hafi komið málefnalegum rökum þess á framfæri til Vinnumálastofnunar, bæði innan og utan frests. Fyrirtækið sé rekið af öðrum eigendum. Upphafskostnaður við þessa innlendu umboðssölu hafi verið mjög takmarkaður og því hafi skipting eignarhluta verið ákveðin í samræmi við mótframlag annarra eiganda. Framlag kæranda til félagsins hafi verið hugbúnaður í hans eigu sem sé í dag nýttur til rekstursins, hæfilega metið 60%.

Kærandi krefjist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta verði felld úr gildi ásamt ákvörðun um að stöðva greiðslur til hans. Ákjósanlegast væri að fá þær bætur sem kæranda hafi ranglega verið neitað um greiddar afturvirkt frá þeim tíma er ákvörðun hafi verið tekin til 1. febrúar 2023.

Í athugasemdum kæranda er tekið fram að margfaldar afsökunarbeiðnir frá stjórnvaldi verði ekki fyrir hans leyti til þess fallnar að bæta úr þeim annmörkum sem hann hafi áður vísað til. Eins og áður hafi komið fram sé staða kæranda í félaginu ólaunuð. Aðrir minnihluta eigendur B ehf. sinni rekstri félagsins á öllum sviðum, þar á meðal mannauði. Það sé ljóst að allir fastráðnir starfsmenn og allir þeir sem sitji í stjórn og fari með hlut í félaginu séu einnig sýndir á vefsíðu B ehf. en slíkt sé aðeins til þess fallið að tryggja gagnsæi í viðskiptum. Rekstur verslunarinnar byggi alfarið á trausti viðskiptavina á þeirri vöru sem þau versli og fyrirtækinu sem þau versli við. Það hafi verið mat þess sem raunverulega sinni rekstri félagsins að kærandi skyldi einnig sýndur á vefsíðu félagsins, sérstaklega í ljósi þess að á vefsíðu Ríkisskattstjóra sé kærandi skráður eigandi þess. Aðrir eigendur séu þó og hafi alltaf verið sýndir undir öðrum formerkjum en stjórnarsetu sinni, sem „starfsmaður“, „markaðsstjóri“ eða annað, enda komi þeir að rekstri og starfsemi félagsins, annað en kærandi.

Á launagreiðendaskrá B ehf. hafi verið mest fjórir starfsmenn. Einn þeirra sé sá eigandi B ehf. sem sjái um daglegan rekstur sem hafi jafnframt fengið greidd laun í eitt sinn frá C ehf. fyrir framlag við stofnun félagsins B ehf. Kærandi hafi ekki komið að þeirri vinnu sem hafi farið í að koma fyrirtækinu á fót. Af eigin gögnum hefði Vinnumálastofnun getað séð að þrír þeirra hafi verið ráðnir af atvinnuleysisskrá með ráðningarstyrkjum þar sem laust starf hafi verið auglýst og meðmæli að ráðningum fengið frá stofnuninni. Ekki einu sinni hafi Vinnumálastofnun mælt með að kæranda yrði boðið starfið, enda að sögn annarra eigenda og af eigin raun hefði kærandi hvorki uppfyllt hæfniskröfur né getað sinnt þeim störfum sem hafi verið ráðið í. Af sömu gögnum sem Vinnumálastofnun ætti að hafa undir höndum, en af einhverjum sökum hafi ekki verið skoðuð við úrlausn málsins, megi sjá að annar eigandi B ehf. hafi séð um fyrrnefndar ráðningar í gegnum Vinnumálastofnun og sá hinn sami hafi ekki getað réttlætt það að veita kæranda starf hjá félaginu. Þeir sem starfi hjá B ehf. hafi víðtæka reynslu af þjónustu, gríðarlegan áhuga á sviðinu og ýmist með þekkingu, menntun og hæfni í listgreinum, markaðssetningu og tísku. Allar framangreindar upplýsingar hefðu að öllu jöfnu komið fram frá kæranda til Vinnumálastofnunar hefði honum verið tjáð um þau gögn eða þann rökstuðning sem hafi legið til grundvallar ákvörðuninni.

Í c-lið 1. mgr. 14. gr. sé að finna eftirfarandi skilyrði fyrir því að teljast í virkri atvinnuleit:

„hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,“

Kæranda hafi aldrei boðist starf hjá félaginu, hvorki bókstaflega né raunverulega. Kærandi telji sig vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir að hafa ekki getað unnið fyrir umrætt félag né þegið laun frá því. Kærandi hafi sótt um störf sem honum bjóðist, tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum og farið í atvinnuviðtöl. Kærandi hafi jafnframt miðlað upplýsingum í samræmi við i-lið 1. mgr. 14. gr. viðeigandi laga. Þar sé eftirfarandi skilyrði fyrir því að teljast í virkri atvinnuleit:

„er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum,“

Þau störf sem hafi boðist laus í félaginu hafi ekki verið við hæfi í skilningi ákvæðisins.

Þrátt fyrir að kærandi hafi, að eigin frumkvæði, sent erindi til Vinnumálastofnunar og stofnunin tekið þau andmæli til greina verði úrskurðarnefnd þó að vera það ljóst að andmælarétturinn hafi misst marks. Þótt brot á reglum um birtingu ákvörðunar leiði ekki eitt og sér til þess að ákvörðunin sé ógildanleg geti varla verið að andmælaréttur og rannsóknarskylda stjórnvalds verði virt að vettugi.

Þrátt fyrir athafnaleysi Vinnumálastofnunar við að verða við beiðni um rökstuðning ákvörðunar hafi umbeðin gögn verið afhent kæranda í málinu. Þeirri beiðni hafi verið svarað með skjáskoti af vefsvæði B ehf. Í kjölfar stjórnsýslukærunnar virðist núna liggja fyrir önnur gögn til stuðnings ákvörðuninni sem kærandi hafi aldrei haft kost á að tjá sig um. Kærandi hafi í raun aldrei átt kost á að tjá sig um vafa Vinnumálastofnunar varðandi hvort skilyrði til atvinnuleysistrygginga væru uppfyllt. Kærandi hafi ekki getað svarað fyrir sig.

Eitt og sér sé hér um að ræða tvenns konar brot á öryggisreglum stjórnsýsluréttarins sem séu ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að stjórnvaldsákvarðanir verði efnislega rangar, líkt og í máli kæranda. Kærandi hafi aldrei fengið rökstuðning, fyrr en nú á kærustigi, og hafi aldrei átt raunverulegan kost á að tjá sig í málinu.

Kærandi standi áfram fastur á því að um sé að ræða efnislega ranga ákvörðun sem sé byggð á röngum forsendum sem rekja megi til brests á rannsóknarskyldu og valdþurrðar þegar það komi að of fortakslausri túlkun laga nr. 54/2006. Í því samhengi vísist á ný til brota á birtingu, rétti til rökstuðnings og andmælaréttar. Andmælaréttur almennt hafi bein áhrif á rannsóknarskyldu stjórnvalda samkvæmt stjórnsýslulögum, enda megi ætla að málið sé hvorki nægjanlega né rétt upplýst án afstöðu kæranda eða aðkomu. Eins sé það afstaða kæranda að Vinnumálastofnun hafi ekki unnið nægilega að því að upplýsa málið með vísan til þess að aldrei hafi verið leitað vitnisburðar né afstöðu annarra sem kynnu að geta veitt upplýsingar um málið, t.d. þann eiganda sem hafi séð um ráðningarstyrki Vinnumálastofnunar. Jafnframt hafi Vinnumálastofnun ekki kannað eigin gögn sem hafi gefið til kynna að félagið hafi þurft að þiggja styrk til þess að ráða inn hæfa starfsmenn í félagið. Hvorki hafi verið stuðlað að því að auka upplýsingagjöf frá kæranda með því að veita honum aðgang að öllum gögnum málsins, eins og beðið hafi verið um, né hafi verið veittur rökstuðningur fyrir ákvörðun.

Kærandi hafi sótt um og fengið atvinnuleysistryggingar í júlí 2020. Félagið B ehf. hafi verið stofnað í febrúar árinu eftir af tveimur nákomnum einstaklingum og C ehf. (í eigu kæranda). Það hafi ekki hvarflað að kæranda að eignarhald á hlutafé, burt séð frá því hvort hlutur í umræddur félagi væri í rekstri eða ekki, kynni að hafa áhrif á rétt til atvinnuleysistrygginga. Kærandi hefði vafalaust gert aðrar ráðstafanir en þær að fá eignarhlut í félaginu hefði það ekki samrýmst markmiði og gildissviði laga nr. 54/2006, sbr. túlkun Vinnumálastofnunar á 1. og 2. gr. þeirra laga. Það sé mat kæranda og von að slík fortakslaus túlkun geti ekki átt sér stað hjá Vinnumálastofnun án atbeina og afstöðu löggjafans, enda sé ekkert sem bendi til þess í lögum né lögskýringargögnum að slíkt eigi eitt og sér að leiða til brottfalls réttar samkvæmt lögunum.

Vinnumálastofnun vísi til tveggja úrskurða úrskurðarnefndar, nr. 22/2023 og 23/2023. Kærandi geti ekki séð af þeirri framkvæmd að afstaða hafi verið tekin til þess hvort eignarhald eða stjórnarseta í félagi kynni ein og sér að vera ósamrýmanleg gildissviði og markmiði laganna. Málsatvik í þeim málum séu að miklu leyti frábrugðin máli kæranda, enda önnur gögn sem hafi stutt við að þeir kærendur hafi stundað atvinnu í eigin félagi (vitnisburður, samfélagsmiðlar ofl.). Engin önnur gögn bendi til þess að kærandi vinni fyrir B ehf., enda yrðu þá slík gögn leidd í ljós. Kærandi hafi ekki og starfi ekki fyrir félagið þrátt fyrir að eiga hlutdeild í því. Kærandi óski þar af leiðandi eftir því að niðurstaða úrskurðarnefndar verði á annan veg. Kærandi hafi mótmælt ákvörðuninni á margvíslegum forsendum og bent á margvísleg brot Vinnumálastofnunar í sinn garð.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 13. júlí 2020. Með erindi, dags. 20. ágúst 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Í kjölfar reglulegs eftirlits innan Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi væri skráður 100% eigandi hlutfjár félagsins C ehf. Þá væri félagið C ehf. 60% eigandi hlutfjár félagsins B ehf. Í ljósi þeirra upplýsinga hafi Vinnumálastofnun farið að rannsaka hagi kæranda. Í því skyni hafi upplýsinga verið aflað frá embætti Skattsins, meðal annars um skráningar í fyrirtækjaskrá, ársreikninga og launagreiðendaskrá. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda sé hann skráður stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins B ehf. og að auki fari hann með óbeint eignarhald á 60% hlutafjár félagsins í gegnum félagið C ehf., en eins og áður segi sé kærandi eigandi alls hlutfjár þess félags. Samkvæmt upplýsingum frá embætti Skattsins hafi einn til fjórir starfsmenn verið á launagreiðendaskrá félagsins B ehf. á tímabilunum mars 2021, júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022. Einn starfsmaður hafi verið á launagreiðendaskrá félagsins C ehf. í desember 2020. Kærandi hafi þó ekki verið sjálfur skráður á launagreiðendaskrá, hvorki hjá B ehf. né C ehf. Til viðbótar við framangreindar upplýsingar megi nefna að á vefsíðu B ehf. sé kærandi listaður meðal þeirra sem veiti aðstoð í tengslum við starfsemi félagsins, sem sé heildsala með fatnað og skó. 

Þann 13. desember 2022 hafi Vinnumálastofnun sent kæranda erindi og greint honum frá því að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað hjá B ehf. samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Óskað hafi verið eftir því að kærandi veitti Vinnumálastofnun frekari skýringar vegna þessa. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma skýringum sínum að. Fyrir mistök hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun í máli kæranda áður en framangreindur frestur hafi verið liðinn. Kæranda hafi með erindi, dags. 20. desember 2022, verið tilkynnt að það væri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hann ætti ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í ljósi þess að hann hefði starfað á innlendum vinnumarkaði og án þess að hafa tilkynnt það til Vinnumálastofnunar. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 59. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilanna mars 2021, júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022, samtals 5.775.550 kr. Kæranda hafi verið tjáð að honum yrði gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, auk álags, samtals 6.641.883 kr.

Þann 28. desember 2022 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi sagst eingöngu fara með hlutverk stjórnarformanns í félaginu B ehf. en það væri ólaunað. Kærandi hafi greint frá því að stjórn félagsins hefði ekki komið saman og því hefði engin vinna verið innt af hendi fyrir félagið. Kærandi, sem einn af eigendum félagsins, væri vissulega að veita rekstraraðilum og öðrum eigendum ráðgjöf en fengi þó engar launagreiðslur fyrir slíkt. Í kjölfar þessa skýringa hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 29. desember 2022, hafi kæranda þó verið tjáð að það væri niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hans.

Þann 8. mars 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi þar greint frá því að hann teldi birtingar ákvarðana stofnunarinnar vera ófullnægjandi en hann hefði fyrst þann 5. mars 2023 séð hvar nálgast mætti umræddar ákvarðanir stofnunarinnar. Hann hefði ekki fengið tilkynningu um að ákvörðun í máli hans lægi fyrir. Þá teldi kærandi ákvörðun stofnunarinnar vera byggða á röngum forsendum. Af opinberum gögnum mætti ráða að framlag kæranda til fyrirtækisins væri með öllu ólaunað og fælist að meginstefnu til í ráðgjöf til dóttur hans, en hún ræki fyrirtækið. Kærandi hafi sagt 60% eignarhald hans á hlutfjár félagsins vera tilkomið því hann hafi lagt til hugbúnað sem væri nýttur í rekstri félagsins. Eignarhluti hans hafi því verið ákveðinn í samræmi við mótframlag. Ákvörðun stofnunarinnar væri íþyngjandi og kærandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði tekið til endurumfjöllunar. Jafnframt hafi kærandi óskað eftir því að honum yrði veittur rökstuðningur, auk aðgangs að gögnum málsins.

Vegna mistaka stofnunarinnar hafi þessum tölvupósti kæranda ekki verið svarað efnislega. Kærandi hafi því hvorki fengið rökstuðning né afhent gögn í máli sínu. Þá hafi mál hans ekki verið tekið til endurumfjöllunar líkt og hann hafi óskað eftir. Vinnumálastofnun biðji kæranda velvirðingar á þessum misbresti á málsmeðferð í máli hans.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. gr. laga um atvinnuleysistrygginga sé markmið laganna að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða.

Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá embætti Skattsins um félagið B ehf. sé aðalstarfsemi þess heildverslun með fatnað og skófatnað. Fyrir liggi að kærandi fari með óbeint eignarhald á 60% hlutafjár félagsins. Hann sé þó ekki aðeins eigandi meirihluta hlutafjár félagsins heldur jafnframt gegni hann stöðu stjórnarformanns og þá sé hann að auki prókúruhafi félagsins. Helstu skýringar kæranda séu þær að hann hafi ekki starfað hjá félaginu. Hann gegni aðeins hlutverki stjórnarformanns en það sé með öllu ólaunað. Þá samsvari 60% eignarhlutur hans til mótframlags hans til félagsins, þ.e. umrædds hugbúnaðar.

Að mati Vinnumálastofnunar samrýmist það hvorki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. gr., að eigandi, stjórnarformaður og prókúruhafi tiltekins félags, sem sé í fullum rekstri, þiggi atvinnuleysisbætur. Hvort þá heldur þegar umrætt félag sé með starfsmenn í vinnu. Mikilvægt sé að árétta í þessu sambandi að kærandi sé prókúruhafi og hafi þar með heimildir til þess að skuldbinda félagið. Meðal annars í því ljósi verði að telja að kærandi gegni mikilvægu hlutverki í rekstri félagsins. Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn og reksturs félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. c. til f. lið 1. mgr. 14. gr. Þá sé í g. lið 14. gr. kveðið á um að skilyrði fyrir virkri atvinnuleit sé jafnframt að viðkomandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Samkvæmt kæranda hafi hann ekki starfað hjá B ehf. Hann sinni þó hlutverki stjórnarformanns en í því felist helst handleiðsla og leiðsögn. Með vísan til þess sem að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi, þrátt fyrir eindregna neitun sína, starfi hjá umræddu félagi. Slík niðurstaða leiði af stöðu hans innan félagsins, enda fari hann sem prókúruhafi með rekstur félagsins og sé heimilt að skuldbinda það. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slíkt geti hvorki samræmst markmiði laga um atvinnuleysistryggingar né ákvæði 14. gr. laganna um virka atvinnuleit.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til Vinnumálastofnunar. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem starfsemi hafi verið í rekstri hans. Vinnumálastofnun vísi í þessu samhengi einkum til 1., 2. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, auk nýlegra úrskurða nefndarinnar í málum nr. 22/2023 og 23/2023.

Í 59. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög þeirra sem láti hjá líða að tilkynna um vinnu samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæði 59. gr. a. hafi komið inn í lög um atvinnuleysistryggingar með 8. gr. laga nr. 94/2020 um breytingu á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar (skilvirkari framkvæmd). Í ákvæðinu sé skýrt kveðið á um að hver sá sem hafi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verði uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu samkvæmt 35. gr. a. laganna eða að atvinnuleit sé hætt samkvæmt 10. gr. laganna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur. Jafnframt sé gengið út frá því að viðkomandi verði gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 39. gr. laganna.

Eins og að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi teljist ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Af stöðu hans innan félagsins B ehf. leiði að hann hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á þeim tíma er rekstur hafi verið í félagi hans. Með vísan til 59. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Kærandi skuli ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju fyrr en hann hafi starfað í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Samkvæmt lokamálslið 59. gr. a. skuli kærandi jafnframt endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 39. gr. laganna en ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Eins og fram komi í ákvörðunarbréfi stofnunarinnar, dags. 20. desember 2022, sé kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals 5.775.550 kr., auk álags, vegna tímabilanna mars 2021, júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022. Að mati Vinnumálastofnunar hafi sannarlega verið rekstur í B ehf. á umræddum tímabilum, enda félagið þá með starfsmenn á launagreiðendaskrá. 

Heildarskuld kæranda standi í 6.641.883 kr. og þar af sé álag að fjárhæð 866.332 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annamarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun einkum til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag á skuld hans.

Í kæru og í samskiptum sínum hafi kærandi gert athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Þær athugasemdir lúti að meginefni til að birtingu ákvarðana stofnunarinnar. Fallast megi á með kæranda að birting ákvarðana hafi ýmsum annmörkum verið háð. Þannig hafi Vinnumálastofnun láðst að senda kæranda tilkynningu þess efnis að niðurstaða lægi fyrir í máli hans þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun þann 20. desember 2022. Hins vegar hafi allar ákvarðanir verið birtar á „Mínum Síðum“ undir „rafræn skjöl“, en kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki vitað að ákvarðanir stofnunarinnar væru birtar þar. Framangreindir annmarkar á birtingu ákvarðana stofnunarinnar valdi því þó ekki að ógilda beri ákvörðun stofnunarinnar.

Kærandi telji jafnframt að ófullnægjandi upplýsingar hafi legið til grundvallar ákvörðuninni og að hún sé reist á röngum forsendum. Kærandi vísi í því samhengi til þess að Vinnumálastofnun hafi hvorki leitað upplýsinga frá þeim sem að rekstri B ehf. komi né hafi verið óskað frekari gagna frá félaginu. Eins og að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar að það leiði af stöðu kæranda sem prókúruhafa og stjórnarformanns að hann gegni mikilvægu hlutverki í rekstri félagsins. Þá liggi fyrir að á launagreiðendaskrá fyrirtækisins á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar byggi á hafi verið einn til fjórir starfsmenn. Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi starfi að rekstri eigin fyrirtækis. Sú niðurstaða leiði af þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hafi óskað eftir frá embætti Skattsins, svo sem upplýsinga úr launagreiðendaskrá, ársreikningum, upplýsinga úr fyrirtækjaskrá og annars konar opinberra skráninga. Vinnumálstofnun hafni því að mál hans hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá telji kærandi að honum hafi ekki gefist tækifæri á að bera fram andmæli sín, meðal annars sökum ófullnægjandi birtingar á ákvörðun stofnunarinnar. Kæranda hafi verið boðið að koma andmælum sínum að með erindi, dags. 13. desember 2022. Kærandi hafi fengið tilkynningu um umrætt erindi Vinnumálastofnunar á „Mínum síðum“ og með tölvupósti sama dag. Fyrir mistök hafi hins vegar verið tekin ákvörðun í máli kæranda áður en sá sjö virkra daga frestur sem kæranda hafi verið veittur til að koma að andmælum sínum hafi verið liðinn. Aftur á móti, í kjölfar þess að skýringar og andmæli kæranda hafi borist stofnuninni þann 28. desember 2022 hafi stofnunin lagt mat á þau andmæli og tekið mál kæranda fyrir að nýju. Það sé því mat stofnunarinnar að kærandi hafi komið að andmælum sínum en það hafi hins vegar verið niðurstaða stofnunarinnar að andmæli kæranda hefðu ekki verið þess eðlis að afturkalla bæri ákvörðun stofnunarinnar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu mars 2021, júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022, sbr. 1., 2. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfað að rekstri eigin fyrirtækis án þess að tilkynna um slíkt til stofnunarinnar og því beri að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans, sbr. 59. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 6.641.883 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 59. gr. a. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 59. gr. a. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að tilkynna um vinnu samhliða atvinnuleysisbótum. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæði 35. gr. a. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“ 

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir svo:

„Lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldu þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur eða sæta biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna til að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu sem þeir taka á sama tíma. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að tilkynna þurfi um vinnuna með eins dags fyrirvara en sá frestur miðast við að þar sem um tilfallandi vinnu sé að ræða geti hún komið til með mjög skömmum fyrirvara. Enn fremur er gert ráð fyrir að tilkynningin geti verið rafræn í gegnum vefsvæði Vinnumálastofnunar. Eðlilegt þykir að hinn tryggði tilkynni um tilfallandi vinnu fyrir fram til Vinnumálastofnunar svo komast megi hjá ofgreiðslu atvinnuleysisbóta. Engu síður er lagt til að heimilt verði að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu deginum áður þar sem ekki var unnt að sjá hana fyrir fyrr en sama dag og hún er innt af hendi. Dæmi um slík tilvik eru ýmiss konar störf sem unnin eru í veikinda- eða slysaforföllum annarra starfsmanna, svo sem við kennslu í skólum. Þar sem um er að ræða undanþágu frá meginreglunni ber að skýra þessa heimild þröngt. Þessi tilkynningarskylda er jafnframt liður í því að koma í veg fyrir að þeir sem verða uppvísir að því að vinna á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur eða sæta biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna geti komið með þá skýringu að eingöngu sé um tilfallandi vinnu að ræða, jafnvel þótt vinnan hafi staðið yfir í einhvern tíma. Er þetta því liður í bættu eftirliti með því að koma í veg fyrir að þeir sem eru virkir á vinnumarkaði geti jafnframt fengið greiddar atvinnuleysisbætur eða sætt biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna á sama tíma.“

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006. Tekið var fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað hjá B ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu var óskað eftir skýringum frá kæranda vegna þessa. Í svari kæranda kemur fram að hann hafi eingöngu hlutverk stjórnarformanns hjá félaginu og samkvæmt samþykktum sé það ólaunað. Stjórn hafi ekki komið saman og því hafi engin vinna verið innt af hendi fyrir félagið. Sem einn af eigendum hafi kærandi vissulega veitt rekstraraðilum og öðrum eigendum ráðgjöf en ekki að einhverju leyti sem myndi réttlæta launagreiðslur frá félaginu, enda hafi hann ekki fengið slíkar greiðslur.

Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi ítrekað að staða hans hjá félaginu sé ólaunuð. Hann hafi ekki starfað fyrir félagið þrátt fyrir að eiga hlutdeild í því. Þá hefur kærandi gert ýmsar athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, andmælareglu 13. gr. sömu laga og hefur vísað til þess að hann hafi aldrei fengið rökstuðning fyrr en á kærustigi. Þá hefur kærandi gert athugasemd við birtingu ákvarðana Vinnumálastofnunar. Líkt og fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar var fallist á að birting ákvarðana hefði verið ýmsum annmörkum háð. Einnig hafi kærandi ekki vegna mistaka stofnunarinnar fengið rökstuðning né fengið afhent gögn í máli sínu.

Hvað varðar tilvísun kæranda til þess að andmælaréttur hafi ekki verið virtur bendir úrskurðarnefndin á, líkt og Vinnumálastofnun gerði einnig í greinargerð sinni, að kæranda var með framangreindu erindi, dags. 13. desember 2022, sérstaklega gefinn kostur á að skila inn skýringum vegna upplýsinga stofnunarinnar um að hann hefði starfað hjá B ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Fyrir mistök var ákvörðun  tekin áður en uppgefinn frestur til að koma að andmælum var liðinn en mál kæranda var þó tekið fyrir að nýju eftir að andmæli bárust og því verður ekki annað séð en að kærandi hafi komið að andmælum sínum og Vinnumálastofnun lagt mat á þau. 

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 59. gr. a. laga nr. 54/2006 kemur til skoðunar hvort ákvæði 35. gr. a. laganna eigi sannanlega við í máli kæranda. Af ákvæðinu er ljóst að það á við um þá sem ekki tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu sem tekin er á sama tíma og greiðslur atvinnuleysisbóta eiga sér stað.

Vinnumálastofnun hefur meðal annars vísað til þess að kærandi fari með óbeint eignarhald á 60% hlutafjár félagsins B ehf. Hann gegni jafnframt stöðu stjórnarformanns og sé prókúruhafi félagsins. Það leiði af stöðu kæranda sem prókúruhafa og stjórnarformanns að hann gegni mikilvægu hlutverki í rekstri félagsins. Á launaskrá fyrirtækisins hafi verið einn til fjórir starfsmenn á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar byggi á, eða marsmánuð 2021, júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022. 

Að mati úrskurðarnefndarinnar getur ákvæði 35. gr. a. laga nr. 54/2006 ekki átt við um framangreindar aðstæður kæranda. Á því er byggt að kærandi hafi starfað hjá eigin fyrirtæki í marga mánuði á árunum 2021 og 2022 en slíkt getur að mati nefndarinnar ekki fallið undir tilfallandi vinnu í almennum málskilningi þess orðs. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 59. gr. a. laga nr. 54/2006 því felld úr gildi.

Kemur þá til skoðunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna marsmánaðar 2021, tímabilsins júní til desember 2021 og janúar til nóvember 2022 með vísan til þess að á þeim tímabilum hafi B ehf. sannarlega verið í rekstri, enda félagið þá með starfsmenn á launagreiðendaskrá.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Úrskurðarnefndin telur ljóst að kærandi hafi að einhverju leyti starfað í þágu félagsins, enda hefur hann sjálfur viðurkennt að hafa veitt rekstraraðilum og öðrum eigendum ráðgjöf. Hins vegar liggur ekki ljóst fyrir að kærandi hafi verið í fullu starfi allt það tímabil sem endurgreiðslukrafan lýtur að.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi ekki upplýst mál kæranda nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta var tekin. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er því einnig felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. desember 2022, um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 21. desember 2022 þar sem greiðslur atvinnuleysisbóta til A, voru stöðvaðar og ofgreiddar atvinnuleysisbætur innheimtar, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum